Wednesday, August 10, 2005

Flogið heim

Þetta var nokkuð erfiður dagur því hann hófst klukkan 4:15 um morguninn. Þá sóttum við picnic boxið niður í móttöku á hótelinu, kláruðum að gera okkur til og vorum komin út í leigubíl á leið út á flugvöll klukkan 5.15. Klukkan 6:30 vorum við komin út á flugvöll og í mjög langa röð til að tjékka inn, komin í vélina um klukkan 7:30 en vegna tafa fór vélin klukkutíma of seint af stað og tók ekki á loft fyrr en um klukkan 9. Við lentum svo klukkan 13 og vorum komin út í Bora bílinn okkar um klukkan 14 og svo heim um 15 (þ.e. klukkan eitt að íslenskum tíma). Við flugum auðvitað heim aftur með Futura og vorum ekki par ánægð með flugfélagið því þessi klukkutíma seinkun kom til vegna þess að einn af farþegunum hafði gleymt einhverju við öryggishliðið. Þetta tók klukkustund og allir 150-200 farþegarnir voru látnir bíða. Var ekki hægt að senda þenna "pakka" til farþegans? Svo lentum við í því þegar við sóttum Bora bílinn okkar sem hafði staðið í tvær vikur úti á flugvelli að bremsurnar voru orðnar fastar. Þegar við keyrðum af stað losnuðu þær en bíllinn hristist mikið og vissum við fyrst ekki hvað var í gangi. Eftir að hafa keyrt inn til Keflavíkur og rætt þarf við bifreiðavirka var óttinn horfinn (og hristingurinn búinn að minnka mikið) og við héldum áfram til Reykjavíkur.

Tuesday, August 9, 2005

Veikindi og pökkun

Þegar við vöknuðum vorum við öll slöpp á mismunandi máta, sumir með í maganum og aðrir með kvef og beinverkir. Svo ákveðið var að reyna að koma sér í gang með því að fara út í morgunverð á sama stað og tveimur dögum fyrr. Þetta var mjög gott og við vorum mun betri, þó ekki alveg. Dagurinn fór því eiginlega allur í afslappelsi á hótelherberginu enda veðrið ekki með mikilli sól (sem betur fer). Þó var gengið um í bænum sem endaði með að öll fjölskyldan dembdi sér í gervi-húðflúr sem gerði deginum gott. Um kvöldið var svo farið aftur á Ítalska staðinn þar sem við höfðum fengið pasta áður og var það aftur vel heppnað. Svo var gengið beint heim, slappað frekar af, pakkað, baðað og farið að sofa. Góður undirbúningur fyrir heimferðina á morgun.

Monday, August 8, 2005

Snorkað á ströndinni

Það er skemmtigarður fyrir sunnan Barcelona sem Ellen langaði mikið að prófa. Við ætluðum fyrst að taka rútu öll saman en fannst svo það vera of löng ferð fyrir Uglu litlu. Við erum að tala um 3,5 klukkustundir hvora leið. Þá ætluðu bara Alfred og Ellen að fara tvö, en það væri svo leiðinlegt að eyða heilum degi í sundur rétt áður en við förum heim. Ákveðið var því að taka bíl á leigu, höfðum pantað hann daginn áður, og fara öll af stað strax klukkan 9 um morguninn. Þetta klikkaði því bílinn var ekki til staðar eins og lofað hafði verið og það besta sem hægt var að gera var að fá bíl seinnipartinn og það var hreinlega of seint. Við hættum því við allt eftir að hafa reynt allt til að komast. Í staðinn var ákveðið að kaupa köfunargleraugu og öndunarrör, sem við köllum "snorkbúnað", og fara niður á ströndina. Við eyddum því deginum aftur á ströndinni og snorkuðum um allt, Ellen sá fullt af fiskum og við áttum góðan dag eftir vandamál morgunsins. Um kvöldið löbbuðum við um bæinn og enduðum inn á einum ítölskum stað enn. Þessi staður var mun verri en sá ítalski sem við höfðum farið á áður. Á þessum stað notuðum við nýtt glas fyrir Uglu því hitt hafði gleymst á hótelinu og snögglega var keypt eitt til vara. Almennt var þessi veitingastaður ekki mjög góður og flýttum við okkur heim. Strax þarna vorum við þegar orðin nokkuð slöpp en vorum mun slappari á morgun. Við drifum okkur því heim á hótel og í bólið.

Sunday, August 7, 2005

Hópmynd

Við borðuðum morgunmat á hótelinu eins og alltaf.

Tókum hópmynd niðri við ströndina!

Saturday, August 6, 2005

Hjólabátur

Eftir ferðina til Tossa var ákveðið að fínt væri að taka afslappelsisdag enn og aftur. Við sváfum því út og fórum í fyrsta sinn í morgunmat úti í bæ um klukkan ellefu. Við gengum niður í bæ og fórum á góðan morgunmat-stað sem Hjördís og Ellen höfðu fundið þegar þær fóru niður í bæ kvöldið áður til að kaupa í kvöldkaffið. Þegar Ugla svo svaf yfir hádegisbilið var spiluðu mamma og Ellen þythokkí og billiard á hótelinu. Eftir langan morgunmat var svo farið á ströndina. Nú var hins vegar búið að prófa allt sem ströndin biði uppá (án hjálpartækja) og komið var að því að leigja hjólabát og prófa það. Pabbi og Ellen gerðu það og hjóluðu um alla ströndina. Við stungum okkur mikið, syntum um, köfuðum og fífluðumst eins og við gátum, þótt Ellen væri kannski helst til stutt í sjónum í hvert sinn (sagðist hrædd við marglyttur eftir að hafa lestið grein í Lifandi Vísindi).Um kvöldið var komið að því að prófa enn eitt steikhúsið (Argentískt í þetta sinn). Hér fengum við enn og aftur mjög góðar steikur þótt við teldum að tvö steikhús í þessu sumarfríi væri nóg.

Friday, August 5, 2005

Tossa de Mar

Örlítið upp eftir strandlengjunni frá Lloret de Mar liggur önnur strönd sem kölluð er "Tossa". Við tókum bát þar upp eftir um morguninn. Þegar þangað var komið þá sáum við að þetta var nær eins og Lloret, þó kannski örlítið minna, rólegra og meira fyrir fjölskyldufólk. Við höldum að Lloret de Mar sé dálítill partý-staður þótt herbergið okkar snúi þannig að við verðum ekki vör við neitt.Á Tossa hittum við á góða búð þar sem fullorðna fólkið gat keypt sér föt. Við keyptum því slatta, en þurftum að bíða því einhver kallinn var frekar breiðari en lengri þegar að meðaltalinu kemur. Það þurfti semsagt að stytta buxur pabbans. Við borðuðum því kvöldmatinn mjög snemma, á Tossa, sóttum buxurnar og tókum bátinn aftur heim um klukkan hálf sex. Vegna þessa þurfum við því að hlaupa út og kaupa brauðmeti í kvöldkaffið rétt áður en við fórum að sofa. Mjög góður dagur.

Thursday, August 4, 2005

Strandlega

Eftir Water World var ákveðið að taka léttan dag og jafna sig í bakinu. Eftir morgunverðinn var því löng lega á ströndinni en farið á röltið þegar leið á daginn. Í bænum voru keypt föt og derhúfur eins og þurfa þótti. Um kvöldið var farið á ítalskan veitingastað þar sem við fengum pasta og borðaði Ugla það með okkur. Það lítur út fyrir að hún sé nú farin að minnka sinn eigin mat til að undirbúa sig fyrir að fá hjá okkur. Þetta þarf greinilega að passa þótt gaman sé að sjá að hún sé farin að borða nánast hvað sem er í litlum skömmtum.

Wednesday, August 3, 2005

Water World

Eftir rigningu gærdagsins þá stytti upp og sólin fór að láta sjá sig. Veðurspáin var líka góð og því ákveðið að fara í vatnsrennigarðinn Water World sem er í Lloret de Mar. Þegar farið er í Water World þá er gengið upp á rútustöðina og rútan tekur um 15 mínútur að komast á staðinn. Þannig að við þutum niður í morgunmat á hótelinu, skófluðum honum í okkur, renndum okkur í rútuna og og vorum komin í Water World um hálf ellefu.Í Water World er nóg að gera en þó ekkert fyrir hálfs árs. Þess vegna var einn fullorðinn með þeirri litlu og einn með þeirri stóru í rennibrautunum. Farið var í allskonar brautir en tókst misvel til. Sumir fengu tak í bakið og aðrir runnu hreinlega ekki allaleið niður sumar brautirnar. Þetta var samt gaman og mikið hlegið. Um kvöldmatarleitið var farið aftur heim með sömu rútu. Svo var haldið á góðan kjötstað þar sem mikið var borðað og Sangria með. Þetta var allt í allt einn besti dagur ferðarinnar.

Tuesday, August 2, 2005

Grenjandi rigning

Eftir morgunverðinn fórum við á ströndina þar sem allir undu sér vel. Eins og aðrir hafði pabbinn borið vel á sig sólarvörnina en sat hins vegar aðeins of lengi með bakið i sólina og brann eitthvað, þótt ekki hafi það þó flaggnað. Seinni partinn byrjaði hins vegar að rigna og þurftum við að hlaupa heim af ströndinni. Það er ekki oft sem maður hleypur um í rigningu á sundskýlunni einni fata.

Monday, August 1, 2005

Skýjaður dagur

Þennan dag var skýjað og lítið um sól. Samt var þó nokkuð heitt svo eftir staðgóðan morgunmat á hótelinu þá fórum við í langa bæjarferð. Við nenntum samt ekki að eyða öllum deginum gangandi í bænum og seinnipartinn ákváðum við því að láta skýjin ekki halda okkur frá ströndinni. Það var hins vegar of kalt á ströndinni og gáfumst því fljótt upp.Um kvöldið ákváðum við að gefa hótelinu annað tækifæri á kvöldmatnum. Þetta var samt samskonar matur og áður og fannst okkur þetta vera fyrir neðan allar hellur. Líklegast til fær hótelið ekki annað tækifæri.

Sunday, July 31, 2005

Disaster Café

Fengum okkur morgunmat á hótelinu og lögðumst svo við sundlaugina. Ellen var samt sú eina sem fór í laugina; fullorðna fólkinu sýndist hún allt of köld. Þarna var líka minni pollur sem við leyfðum Uglu að prófa að svamla aðeins í, auðvitað var samt haldið á henni á meðan, og líkaði henni mjög vel. Um eftirmiðdaginn þá löbbuðum við í bænum og tókum svo leigubíl til Disaster Café. Þetta er veitingastaður þar sem öðru hverju hverfur rafmagnið, mikll hávaði heyrist og gólf og borð hristast eins og um jarðskjálfta, 7.8 stig á Richter segir auglýsingin. Einnig storma þá inn hin ýmsu skrímsli en einnig eru aðrar uppákomur. Þetta var mjög gaman og hlógum við mikið en Uglu tókst að sofna(?).

Saturday, July 30, 2005

Fyrsti dagurinn á Spáni

Fórum í fyrstu bæjarferðina; Ellen keypti sér föt og vindsæng. Svo fórum við á ströndina; Alfred og Ellen fóru í sjóinn. Um kvöldið fengum við okkur svo kvöldmat á hótelinu úr því við erum í hálfu fæði. Við vorum allsendis ekki ánægð með það og ekki viss um að við viljum gera það aftur.

Friday, July 29, 2005

Á leið til Spánar í sumarfrí

Vöknuðum mjög snemma, keyrðum út á flugvöll og flugum til Barcelona með Futura. Þegar á staðinn var kominn var enginn íslenskur fararstjóri í augsýn eins og Heimsferðir höfðu sagt okkur. Við hringdum því heim í Heimsferðir og þeir sögðu að við ættum að sjá um okkur sjálf. Við tókum þá leigubíl til Lloret de Mar og höfðum bara gaman af og skeggræddum við leigubílstjórann á "spænsku". Þegar við komum á hótelið var okkur tilkynnt að okkar fjögurramanna fjölskylda væri í tveimur herbergjum og í fullu fæði. Þetta var auðvitað klikk númer 2 hjá Heimsferðum þennan fyrsta dag. Fjölskylduherbergi fannst samt og við gátum komið okkur niður í hálft-fæði. Hvaða gagn höfðum við af því að kaupa ferðina hjá Heimsferðum. Það eina sem Heimsferðir gerðu fyrir okkur var að panta flug og hótel (og bæði hálf-klikkaði). Við vorum samt ekki tilbúin til að borða á hótelinu fyrsta daginn svo við fórum út að borða og fengum þessa fínu spænsku Paellu og Sangria.