Sunday, July 31, 2005

Disaster Café

Fengum okkur morgunmat á hótelinu og lögðumst svo við sundlaugina. Ellen var samt sú eina sem fór í laugina; fullorðna fólkinu sýndist hún allt of köld. Þarna var líka minni pollur sem við leyfðum Uglu að prófa að svamla aðeins í, auðvitað var samt haldið á henni á meðan, og líkaði henni mjög vel. Um eftirmiðdaginn þá löbbuðum við í bænum og tókum svo leigubíl til Disaster Café. Þetta er veitingastaður þar sem öðru hverju hverfur rafmagnið, mikll hávaði heyrist og gólf og borð hristast eins og um jarðskjálfta, 7.8 stig á Richter segir auglýsingin. Einnig storma þá inn hin ýmsu skrímsli en einnig eru aðrar uppákomur. Þetta var mjög gaman og hlógum við mikið en Uglu tókst að sofna(?).

Saturday, July 30, 2005

Fyrsti dagurinn á Spáni

Fórum í fyrstu bæjarferðina; Ellen keypti sér föt og vindsæng. Svo fórum við á ströndina; Alfred og Ellen fóru í sjóinn. Um kvöldið fengum við okkur svo kvöldmat á hótelinu úr því við erum í hálfu fæði. Við vorum allsendis ekki ánægð með það og ekki viss um að við viljum gera það aftur.

Friday, July 29, 2005

Á leið til Spánar í sumarfrí

Vöknuðum mjög snemma, keyrðum út á flugvöll og flugum til Barcelona með Futura. Þegar á staðinn var kominn var enginn íslenskur fararstjóri í augsýn eins og Heimsferðir höfðu sagt okkur. Við hringdum því heim í Heimsferðir og þeir sögðu að við ættum að sjá um okkur sjálf. Við tókum þá leigubíl til Lloret de Mar og höfðum bara gaman af og skeggræddum við leigubílstjórann á "spænsku". Þegar við komum á hótelið var okkur tilkynnt að okkar fjögurramanna fjölskylda væri í tveimur herbergjum og í fullu fæði. Þetta var auðvitað klikk númer 2 hjá Heimsferðum þennan fyrsta dag. Fjölskylduherbergi fannst samt og við gátum komið okkur niður í hálft-fæði. Hvaða gagn höfðum við af því að kaupa ferðina hjá Heimsferðum. Það eina sem Heimsferðir gerðu fyrir okkur var að panta flug og hótel (og bæði hálf-klikkaði). Við vorum samt ekki tilbúin til að borða á hótelinu fyrsta daginn svo við fórum út að borða og fengum þessa fínu spænsku Paellu og Sangria.