Thursday, August 2, 2007

Lok sumarleyfis

Jæja, þá er sumarfríinu lokið. Fjölskyldan lauk því með að keyra hringinn á tæpri viku, púúhh.

Við byrjuðum á því að taka á leigu fellihýsi á miðvikudaginn fyrir viku, fylla það af dóti og þrusa okkur af stað snemma á fimmtudeginum. Fyrsta málið með fellihýsið kom strax á leiðinni þegar við áttuðum okkur á því að það var búið að opna sig um allt að hálfan meter. Við þurftum því að stoppa á þjóðvegi eitt og loka því.

Ætlunin var að ná í giftinguna hjá Unnari og Hannah, vinum okkar frá Jersey, í Akureyrarkirkju kl. 16. Það rétt slapp að koma börnunum til systur Hjördísar og manninum hennar, og skoppuðum við inn í kirkjuna rétt fyrir klukkan fjögur. Þar sátum við svo í hátt í hálftíma og biðum, ásamt brúðgumanum, eftir brúðinni fram til tuttugu mínútur yfir, gott hjá henni. Svo var bara þessi frábæra veisla á eftir, langt fram á nótt.

Á föstudeginum var keyrt í Ásbyrgi og eyddum við þar tveimur nóttum í fellihýsinu og systir Hjördísar, maðurinn hennar og yngsti sonur í þeirra fellihýsi. Skemmtilegur tími og okkur tókst að lenda í önnur vandræðin með fellihýsið. Þegar verið var að pakka saman hélst þakið uppi öðru megin (vitlaust uppsettar öryggisstangir) og það tók nokkuð langan tíma og nokkrar hringingar til Reykjavíkur áður en það var komið rétt saman.

Sunnudagurinn fór svo í að keyra frá Ásbyrgi til Atlavíkur í Hallormsstaðaskógi og komum við þar nokkuð seint að kveldi og börnin orðin nokkuð þreytt. Fellihýsið upp. Börnin í bólið. Við í bólið. Það voru allir þreyttir þetta kvöld en morguninn eftir voru allir í góðum gír og morguninn var frábær. Gott mál enda löng ferð fyrir höndum þennan dag. Allir fóru í sund og svo var keyrt af stað og ekki stoppað fyrr en í Skaftafelli.

Við komum á kvöldmat á mánudeginum og ákváðum að vera þar í tvær nætur. Þegar við mættum í Skaftafell komumst við að því að við vorum búin að vera svo lengi á leiðinni og ísskápurinn að halda köldu með því að eyða rafmagninu af 12V geyminum á fellihýsinu (af hverju ekki að draga rafmagnið frá bílnum á meðan hann er tengdur?). Við vorum semsagt rafmagnslaus, þriðja vesenið með fellihýsið, sem þýddi ekkert ljós og engan hitablástur um nóttina (föttuðum ekki að kaupa 220V tengingu fyrr en daginn eftir). Við undirbjuggum okkur því undir kalda aðfararnótt þriðjudags, en svo reyndist hún ekki vera svo köld.

Skaftafell er með gott tjaldstæði, góða þjónustu og auðvitað með margar skemmtilegar gönguleiðir en við fórum bara í eina stutta upp að Skaftafellsjökli. Þessi þriðjudagur sem við eyddum í Skaftafelli var eini dagurinn í allri ferðinni sem rigndi. Dagurinn var samt mjög góður og endaði með að við fengum tvo vini í kvöldmat, partý og næturgistingu.

Á miðvikudeginum, þegar vikan var liðin, þurftum við að bruna í bæinn og skila fellihýsinu fyrir klukkan 16. Það tókst vel en þegar við vorum að skila því af okkur tókum við eftir að auka-gaskúturinn sem ekki var tengdur hafði fokið af á leiðinni ásamt grindinni sem átti að halda honum. Ekki tókum við eftir því. Hann var svo til tómur og hefur líklega skoppað beint út í móa, ég held að við hefðum orðið var við hann ef hann hefði farið undir fellihýsið. Allaveganna. Fjórða og síðasta vesenið með fellihýsið.

Við áttum semsagt góða ferð þrátt fyrir vesen með fellihýsið en lærðum líka mikið, um fellihýsi, á þessu. En nú er komið að því að snúa sér aftur að alvarlegri málefnum. Við stefnum nú samt að því að stunda hestaferðir fyrir vestan næstu vikur og enda hestaárið með því að taka þátt í leitum í lok september. Ég mun líklega blogga eitthvað um það á íslensku. En almennt séð þá er líklega samt komið að því að bloggið frá mér verði aftur eitthvað tengt tölvumálum og þá á ensku.