Thursday, February 26, 2009

Ellen tekur þátt í undankeppni "Stora Daldansen"

"Stora Daldansen" í Mora er skandinavísk keppni ungra dansara frá norðurlöndunum og baltísku löndunum í klassískum ballet. Dansararnir skulu vera milli 15 og 20 ára og dansaður er sóló úr klassískum ballet. Árlega senda íslendingar þrjá keppendur í keppnina og eru þeir valdir í undankeppni. Í gær fór undankeppnin 2009 fram í Íslensku Óperunni og tóku 23 dansarar milli 15 og 19 ára þátt. Meðal þáttakanda var 16 ára dóttir mín, Ellen Margrét.

Eftir að allir þáttakendurnir höfðu lokið sínum sóló - sem allir voru frábærir - augljóslega mikið af ballet efnum á Íslandi þessi misserin - þá voru kynntir þeir dansarar sem fara fyrir hönd Íslands í keppnina í Svíþjóð í Maí. Valdir voru þrír frábærir dansarar sem allir eiga vel skilið að fá að fara þarna út. Til viðbótar voru valdir þrír dansarar til vara og var Ellen Margrét varadansari tvö. Þetta er frábær árangur hjá 16 ára stelpu úr 23 dansara hópi.

Til hamingju Ellen.

Ofar hópurinn nálgaðist Skeggja

Á sunnudaginn var fór gönguhópurinn Ofar í eina af sínum ferðum. Ætlunin var að ganga á Hengil, tindur hans kallast Skeggi, en það gekk ekki alveg upp, sjá http://ofar.blogspot.com/2009/02/hengill-i-hyllingum.html :-(

Hjördís er komin með vinnu

Hjördís flutti sig frá Seðlabankanum yfir í Greiningu Glitnis fyrir nokkrum árum en í framhaldi af falli íslensku bankanna í haust þá var hún ein af þeim sem ekki hélt áfram í nýja Glitni. Þannig að hún hefur verið atvinnulaus frá því um miðjan október í fyrra.

Sitjandi heima, veltandi því fyrir sér hvað væri næst, ákvað hún að senda nýjum fjármálaráðherra tölvupóst og heyra hvort hann væri ekki að leita að hagfræðingi til að vinna með sér. Fyrir svona tveimur vikum síðan hringdi Steingrímur svo í hana eitt kvöldið og boðaði hana á fund daginn eftir. Stutta útgáfan: hún var ráðin sem ráðgjafi fjármálaráðherra.

Það létti töluvert yfir heimilinu við þetta enda öll yfir okkur ánægð með að hún væri nú loksins komin með vinnu. Þetta er náttúrulega vinna sem krefst mikils en það er allt í lagi og við mjög sátt við það. Ég hef unnið mikið og Hjördís séð um heimilið á meðan, nú vinnur hún mikið og ég sé um heimilið. Svona á þetta að vera.

Í dag kom Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn til Íslands og ég fékk hringingu frá henni: "Ég þarf að vinna fram eftir í dag. Í dag er dagurinn sem ég drukknaði í vinnunni". Ég hef sjálfur drukknað í vinnu, það er mjög gaman þegar verkefnið er skemmtilegt. Ég veit að Hjördísi finnst þetta mjög skemmtileg vinna og við erum því öll sátt.

Með frétt á mbl.is með titlinum Afla upplýsinga um stöðuna fylgdi myndin hér að ofan og situr Hjördís dökkhærð á móti myndavélinni hinu megin við borðið.

Hún tekur sig aldeilis vel út - konan mín!

Sunday, February 8, 2009

Gönguhópurinn Ofar gengur á Vífilsfell

Í dag gekk gönguhópurinn Ofar á Vífilsfell við Reykjavík.Það má sjá mun meira af þessu frækna afreki á blogsvæði Gönguhópsins Ofar.